Innlent

Straumsvíkurmálinu frestað - vitni neitar að koma til landsins

Frá þingfestingu málsins.
Frá þingfestingu málsins. Mynd/GVA
Réttarhöldunum í Straumsvíkurmálinu svokallað var frestað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgunn þar sem lykilvitni ákæruvaldsins vill ekki mæta fyrir dómstól og bera vitni. Ástæðan er sú að vitnið á að hafa pakkað og sent fíkniefnin frá Hollandi til Íslands, en maðurinn er búsettur í Hollandi. Hann er talinn geta varpað ljósi á það hver skipulagði innflutninginn.

Maðurinn neitar því að koma á þeim forsendum að hann verði hugsanlega handtekinn komi hann heim. Sakborningarnir, sem eru sex talsins, eru meðal annars ákærðir fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Lögreglan lagði hald á tæp tíu kíló af amfetamíni, rúmlega átta þúsund töflur af MDMA og mikið magn stera fyrir jól. Efnin komu frá Rotterdam og fundust í skipi við höfnina í Straumsvík.

Dómari þarf að úrskurða hvort maðurinn í Hollandi þurfi að mæta fyrir rétt eða bera vitni símleiðis eins og ákæruvaldið hefur krafist. Úrskurðurinn verður kunngerður á mánudaginn næsta, en hann er kæranlegur og má því búast við talsverðri töf á framhaldi málsins.

Þá lagði ákæruvaldið einnig fram nýjar upplýsingar. Um er að ræða símhleranir á milli sakborninga. Verjendur fengu frest til þess að kynna sér efnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×