Innlent

Búið að stela nær öllum tönnum úr búrhvalnum í Beruvík

Búið er að stela flest öllum tönnunum úr búrhvalnum, sem rak dauðan á fjöru í Beruvík á Snæfellsnesi um helgina, að því er Skessuhorn greinir frá.

30 til 60 tennur geta verið í búrhval, allt að 25 sentímetra langar með rótinni. Samkvæmt upplýsingum á netinu má fá allt að 200 dollara, eða um 25 þúsund krónur fyrir stykkið.

Áður fyrr voru gjarnan tálgaðir úr þeim ýmsir kjörgripir, einkum til að gleðja höfðingja. Þung viðurlög lágu við að ásælast hvalreka í fjöru annars manns og tíndu menn jafnvel lífinu fyrir þjófnað af því tagi.

Frægasti búrhvalur allra tíma er Moby Dick, eða Hvíti hvalurinn, sem reyndist fjölmörgum hvalveiðimönnum skeinuhættur í skáldsögu Hermans Melville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×