Innlent

Þremenningarnir neituðu allir sök

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson og Ólafur Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Mynd/Vilhelm
Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson sem allir eru ákærðir í svokölluðu al-Thani máli mættu fyrir dóminn í dag. Þeir lýstu allir yfir sakleysi sínu í málinu.

„Ég lýsi mig saklausan af öllum ákæruliðum," sagði Hreiðar Már, fyrrverandi bankastjóri, frammi fyrir fullum dómssal. Ólafur Ólafsson, einn aðaleigandi bankans, sagði hið sama. „Saklaus," sagði Magnús Guðmundsson þegar dómarinn beindi orðum sínum að honum. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, hafði áður mætt fyrir dóminn og lýst yfir sakleysi sínu.

Eftir að þinghaldinu lauk í dag lýsti Ólafur Ólafsson yfir miklum vonbrigðum með ákæruna í samtali við fjölmiðla. Sagði hann ákæruna vera áfall fyrir sig.

Verjendur sakborninga kröfðust þess í dag að fá aðgang að afritum af tölvupóstum sem sérstakur saksóknari hefur til grundvallar ákærunum og afritum af símtölum sem voru hleruð. Þeir hafa áður krafist þess að fá upptökur af yfirheyrslum yfir sakborningunum. Sérstakur saksóknari hefur hafnað því að láta gögnin af hendi en samþykkir að þeir geti kynnt sér gögnin í húsnæði Sérstaks saksóknara.

Kaupþingsmenn eru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik þegar 5% hlutur í Kaupþingi var seldur al-Thani skömmu fyrir hrun með lánum frá bankanum sjálfum án þess að nokkur veð kæmu til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×