Innlent

Rýnt í vinsældir Of Monsters and Men

Of Monsters and Men
Of Monsters and Men
Íslenskur námsmaður í Chicago í Bandaríkjunum hefur birt afar áhugaverða glærukynningu um hljómsveitina Of Monsters and Men. Í kynningunni fjallar hann um þær ástæður sem liggja að baki vinsældum hljómsveitarinnar og varpar hún ljósi á mikilvægt samspil internetsins og lukku.

Það var Björgvin Ingi Ólafsson, MBA nemi við Kellogg School of Management í Northwestern háskólanum í Chicago, sem setti kynninguna saman.

Björgvin segir að vinsældir Of Monsters and Men séu með ólíkindum - þá sérstaklega með tilliti til starfsaldurs hljómsveitarinnar.

Hljómsveitin spilaði á South by Southwest listahátíðinni í Austin á dögunum ásamt fleiri íslenskum hljómsveitum.

"Ég keypti miða á tónleika þeirra hér í Chicago. Stuttu seinna kemst ég að því að það var uppselt á tónleikana og ákveðið hafði verið að færa þá á stærri stað. Miðarnir seldust aftur upp skömmu síðar."

Björgvin fór þá á stúfana og komst að því að þetta var raunin á flestum tónleikum hljómsveitarinnar.

"Mín kenning er sú að þetta sé í raun hálfgert happdrætti - hvort að maður slær í gegn á heimsvísu eða ekki," sagði Björgvin. "Vinningslíkurnar í þessu happdrætti hafa aukist með þeirri miklu samtengingu fólks sem fylgt hefur internetinu, en það virðist þó vera ákveðið handahóf sem ræður úrslitum."

Kynningin er yfirgripsmikil og nákvæm. Aðspurður sagði Björgvin að hann hafi verið í miðjum prófum þegar hann setti hana saman. "Ég hefði náttúrulega átt að vera að læra," sagði Björgvin.

Hægt er að skoða kynningu Björgvins hér fyrir neðan. Einnig er hægt að nálgast hana hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×