Innlent

Makríll stuðlar að húsasmíði á Suðurnesjum

Makrílveiðar valda því að eitt af sjávarútvegsfyrirtækjum Suðurnesja stendur í þrjúhundruð milljóna króna framkvæmdum og sést byggingarkrani nú á hreyfingu í Garðinum.Nesfiskur er langstærsta fyrirtæki í Garði, gerir út níu skip og rekur öfluga fiskvinnslu, bæði í Garði og Sandgerði, og er með um 300 manns í vinnu. Á tímum óvissu í fiskveiðimálum og lítilla framkvæmda í landinu vekur það athygli að þarna er verið að stækka fiskvinnsluhús og tveir flutningabílar sjást aka í hlað með glænýjar stóreflis frystigræjur sem eiga að fara í nýja frystigeymslu.Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisks, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að aukin umsvif vegna makrílsins séu helsta ástæða framkvæmdanna. Verkið hófst í nóvember og stefnt er að því að nýbyggingin verði tilbúin í næsta mánuði. Iðnaðarmenn á Suðurnesjum fá þarna kærkomið verkefni en Bragi Guðmundsson byggingarmeistari í Garði annast smíðina og er með tíu til tólf manns í vinnu.Bergþór segir makrílveiðarnar hafa gengið að óskum. Hann vonar að framhald verði á og að Steingrímur J. Sigfússon, nýr sjávarútvegsráðherra, fylgi sömu stefnu og forverinn, Jón Bjarnason.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.