Innlent

Sami maðurinn framdi þrjú ofbeldisfull rán í miðborginni

Þrjú rán voru framin í miðborginni í eftirmiðdaginn í gær. Talið er að um sama aðila hafi verið að ræða í öll skipti en grunaði er nú í haldi, þrítugur karlmaður og lögreglu vel kunnugur vegna fjölda afbrota.

Í fyrsta tilvikinu ógnaði hann starfsfólki í verslun við Laugaveg og ógnaði því með stórri sprautunál, að talið er. Hann hótaði starfsfólkinu öllu illu ef haft yrði samband við lögreglu vegna málsins. Maðurinn komst undan með eitthvert fé.

Í öðru atvikinu, um klukkan sex í gærdag, réðist maðurinn inn í verslun í nágrenni við Hlemm, og ógnaði þar starfsmanni með oddhvössum hlut. Starfsmaðurinn var svo sleginn í andlitið þegar hann varð ekki við heimtingum mannsins.

Við þetta flúði starfsmaðurinn út en gerandi varð eftir í versluninni. Hann var þó horfinn þegar lögregla kom á vettvang.

Um 20 mínútum síðar réðist sami maður inn í söluturn ögn vestan við Hlemm, með hótunum. Starfsmaðurinn í því tilfelli varð við hótunum árásarmannsins og forðaði sá sér með eitthvert fé. Hann var svo handtekinn í Norðurmýrinni skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×