Innlent

Friðjón ekki beðinn afsökunar

Friðjón Þórðarson.
Friðjón Þórðarson.
„Þeir sáu ekki sóma sinn í að biðjast afsökunar," segir Heiðar Ásberg Atlason, verjandi Friðjóns Þórðarsonar, sem hefur stefnt ríkinu vegna ásakana um peningaþvætti.

Friðjón var handtekinn í nóvember 2008 vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og brot á lögum um peningaþvætti. Krafist var gæsluvarðhalds yfir Friðjóni vegna málsins en dómari hafnaði kröfunni.

Heiðar segir að rannsókn lögreglunnar á máli Friðjóns hafi byggst á vankunnáttu og að rannsakendur hafi ekki skilið gjaldeyrisviðskipti. Þess vegna hafi rannsókn málsins dregist og það velkst í kerfinu í yfir tvö ár. Það var að lokum fellt niður án ákæru.

Heiðar vill ekki gefa upp hversu háar miskabætur Friðjón fer fram á, en Friðjón bauðst til þess að fella málið niður gegn því að fá skriflega afsökunarbeiðni. Við því var ekki orðið í morgun og því fyrirséð að málið mun halda áfram.

Skaði Friðjóns er talsverður að sögn Heiðars. Þannig missti hann vinnuna auk þess sem hann var nafn- og myndbirtur í fjölmiðlum vegna handtökunnar, en Friðjón var einn fyrsti maðurinn úr viðskiptalífinu sem var handtekinn eftir hrun. Hann tengdist þó ekki hruninu með saknæmum hætti.

„Það er alltaf ódýrara að biðjast afsökunar," segir Heiðar um viðbrögð ríkisins, en fyrirtaka fer fram í málinu þann 5. mars næstkomandi.


Tengdar fréttir

Stefnir ríkinu vegna ásakana um peningaþvætti

Friðjón Þórðarson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfafyrirtækisins Virðingar, hefur stefnt íslenska ríkinu vegna meðferðar lögregluyfirvalda á sakamáli gegn honum. Stefnan verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×