Innlent

Réttað yfir fyrrverandi garðyrkjustjóra Orkuveitunnar

Aðalmeðferð stendur nú yfir í máli Kristins H. Þorsteinssonar, fyrrverandi garðyrkjustjóra hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem var ákærður af sérstökum saksóknara fyrir fjárdrátt.

Ákæran á hendur Kristni var þingfest í byrjun janúar síðastliðnum en um er að ræða mál sem embætti sérstaks saksóknara fékk í arf frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra þegar embættin tvö sameinuðust í september á síðasta ári.

Málið hefur verið í rannsókn í um þrjú ár, eða frá því Kristinn lét af störfum hjá Orkuveitunni í desember 2008 vegna útgáfu reikninga upp á samtals 10 milljónir króna til einkahlutafélags í sinni eigu.

Í yfirlýsingu, sem Kristinn sendi frá sér þegar málið komi upp, sagði hann að reikningarnir, sem hann lét Orkuveituna greiða einkahlutafélagi sínu, væru til komnir vegna vinnu tveggja sona hans í íhlaupavinnu hjá Orkuveitunni og vegna verktakavinnu eiginkonu hans. Þá hafi hann fengið bróður sinni til að vinna einstök verkefni fyrir g skrifað upp á reikninga vegna þeirrar vinnu.

Kristinn sagði að í öllum tilvikum hafi verið um að ræða eðlilega greiðslu fyrir þau störf sem unnin voru. Vinna konu hans, sona og bróður hafi verið unnin fyrir opnum tjöldum, á fjölmennum vinnustað og á engan hátt var farið í felur með tengsl þeirra innbyrðis.

Orkuveitan virtist ekki sammála þessu því málið var kært til lögreglu sem rannsakaði hin meintu brot og gaf út ákæru í kjölfarið.

Að lokinni aðalmeðferð í dag verður málið dómtekið en fjárdráttur getur varðað allt að sex ára fangelsi, samkvæmt almennum hegningarlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×