Innlent

Klettaskóli endurbættur fyrir 2 milljarða króna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýi skólinn stendur þar sem gamli Öskjuhlíðarskólinn stóð.
Nýi skólinn stendur þar sem gamli Öskjuhlíðarskólinn stóð. Mynd/ Róbert
Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag að ráðast í nýja viðbyggingu og stórfelldar endurbætur á Klettaskóla, nýjum sameinuðum sérskóla í Reykjavík. Til stendur að koma þar upp 3.400 fermetra viðbyggingu með íþróttaaðstöðu og sundlaug sem þjóna mun skólanum. Þá er gert ráð fyrir að íþróttafélög fatlaðra geti nýtt íþróttasal og sundlaugina.

Þessu til viðbótar verður eldra húsnæði breytt til að það henti betur starfsemi skólans. Frístundastarf, sem í dag er í leigðu húsnæði, mun flytjast inn í skólann að framkvæmdum loknum. Húsnæði skólans mun stækka um helming við þessar framkvæmdir, úr tæplega 3.000 fermetrum í 6.340 fermetra.

Borgarráð gerir ráð fyrir að heildarkostnaður við framkvæmdir verði um 1.970 milljónir króna og er gert ráð fyrir að hönnun og framkvæmdir við byggingu fari fram á árunum 2012-2015 og endurgerð á eldra húsnæði fari fram á árunum 2015-2016. Þegar framkvæmdum lýkur verður öll starfsemi skólans á einum stað, en nú er nemendum ekið bæði í sund og frístund. Klettaskóli þjónar öllu landinu og annast ráðgjöf vegna nemenda með sérþarfir í öðrum grunnskólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×