Innlent

Ammoníakskýið verulega hættulegt í fyrstu

Ammoníakhylkið sem um ræðir.
Ammoníakhylkið sem um ræðir. Mynd/Baldur
Deildarstjóri hjá slökkviliðinu segir að ammoníakskýið sem myndaðist í morgun í Skútuvogi hafi verið verulega hættulegt í fyrstu. Gríðarlega mikið magn ammoníaks lak út í andrúmsloftið í Skútuvogi í morgun þegar gat kom á fimm hundruð kílóa ammoníakshylki sem verið var að flytja úr gámi. Rýma þurfti nærliggjandi fyrirtæki á meðan á aðgerðum stóð.

Slökkvilið var kallað að Skútuvogi um klukkan tuttugu mínútur í níu í morgun eftir að ammoníaksleka varð vart við heildverslun að Skútuvogi 1. „Það virðist vera að þeir hafi verið að taka út úr gám ammoníakhylki, 500 kílóa hylki, þá fer að leka úr einu þeirra sem er inni í gámnum og út í andrúmsloftið fer að streyma hundrað prósent ammoníak," segir Höskuldur Einarsson deildarstjóri hjá Slökkviliðinu.

Ammoníakið steig upp og dreifðist um götuna svo nærliggjandi fyrirtæki fóru fljótt að finna fyrir óþægindum. Slökkviliðið sprautaði vatni yfir lekann en ammoníak leysist upp í vatni. Þeim tókst síðan að reka tréfleyg í gatið á hylkinu og stöðva lekann en ammoníak velur óþægindum og áreiti í öndunarkerfum manna og geta langvarandi áhrif verið skaðleg eða jafnvel banvæn.

„Það er hættulegt að vera inni í miklu ammoníaks skýi og skýið sem gaus hérna upp var verulega hættulegt," segir Höskuldur. „Síðan þynnist þetta hratt út og fólk finnur kannski lyktina mjög snemma, það finnst lykt mjög snemma."

Talið er að krani á hylkinu hafi brotnað við flutninginn og orsakað lekann. Verið er að skoða hvort fleyri hylki hafi laskast.

Þrjú hundruð starfsmönnum Vodafone í Skútuvogi var gert að yfirgefa fyrirtækið þegar ammoníaklyktin fór að berast inn og var lyktin enn megn inni í húsinu þegar fréttastofa leit við um hálf ellefu í morgun. Þjónustuver og verslun Vodafone í Skútuvogi voru lokuð á meðan loftað var út úr húsinu en opnaði aftur nú rétt fyrir fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×