Innlent

Ákærður fyrir að kveikja í húsi - aftur

Leifsgata. Myndin er úr safni.
Leifsgata. Myndin er úr safni.
Karlmaður hefur ákærður fyrir að kveikja í íbúðarhúsi á Leifsgötu i Reykjavík í júlí árið 2010. Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að kveikja í öðru húsi á Tryggvagötu í janúar 2009. Athygli vekur að manninum er gert að sök að hafa borið eld að húsinu tæplega mánuði eftir að Hæstiréttur Íslands staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í júní árið 2010.

Samkvæmt ákæruskjali á maðurinn að hafa komið steinolíubleyttum eldhúspappír fyrir í rafmagnstöflu hússins og því næst borið eld að. Eldsvoðinn hafði í för með sér almannahættu og eignatjón.

Í fyrra málinu játaði maðurinn sök. Hann kvaðst hafa komist að því að fyrrum eiginkona hans, sem átti heima að Tryggvagötu, hefði verið í tygjum við tvo aðra karlmenn sem hún hefði einnig haft fé af.

Maðurinn sagði að umræddan dag hefði fyrrverandi kona hans hringt og vakið hann, hálf geggjuð, eins og hann orðaði það. Sjálfur hefði hann verið búinn að vera á nokkurra daga fylliríi þegar þetta gerðist, og eftir símtalið hafi hann haldið áfram að drekka. Hann hafi þá í reiði tekið „þá skyndiákvörðun að loka þessu greni" með því að kveikja í því.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Maðurinn neitar sök í seinna brennumálinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×