Innlent

Misskilningur segir lögmaður - ætlaði að herma eftir ofsahræddum manni

Jón Egilsson.
Jón Egilsson.
„Dómarinn misskildi þetta. Ég var alls ekki að herma eftir manninum, heldur ætlaði ég að sýna fram á hvernig ofsahræddur maður hagar sér," útskýrir hæstaréttarlögmaðurinn Jón Egilsson sem var dæmdur til þess að greiða 100 þúsund krónur í réttarfarssekt í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Ástæðan samkvæmt dómsorði var sú að hann hermdi með niðurlægjandi hætti eftir stefnanda, manni af portúgölskum uppruna, sem stefndi tveimur mönnum sem misþyrmdu honum árið 2006.

Jón segir dómarann, Kolbrúnu Sævarsdóttur, misskilja leikræna tilburði sína. Jón hafi nefnilega viljað sýna fram á að hegðun mannsins hafi ekki lýst sér í ótta. Maðurinn vildi nefnilega fá skaðabætur þar sem hann varð fyrir áfallastreituröskun, en Jón mótmælti því fyrir hönd skjólstæðings síns, sem var sýknaður í málinu. Hinn maðurinn, sem portúgalski maðurinn stefndi, var dæmdur til þess að greiða honum 3,3 milljónir króna í skaðabætur vegna árásarinnar.

Jón er eini lögfræðingurinn hér á landi sem hefur verið dæmdur tvívegis til þess að greiða réttarfarssekt. Þannig var hann dæmdur árið 2005 til þess að greiða 40 þúsund krónur fyrir að sýna réttinum fádæma óvirðingu. Það gerði hann með því að grípa ítrekað fram í fyrir vitnum og dómara og truflað yfirheyrslur við aðalmeðferð í líkamsárásarmáli.

„Ég er sáttur við að minn maður hafi verið sýknaður. En auðvitað er ég ósáttur við að hafa verið sektaður," segir Jón en aðspurður hvort þarna sé ekki vegið að hans heiðri sem lögmaður, viðurkenni Jón að svo sé.

„Menn þurfa að gæta að virðingu stéttarinnar og við minnum náttúrulega á siðareglurnar," segir Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélagsins, spurður um hegðun Jóns. Hann segir félagið ekki hafa heimild til þess að skjóta einstökum málum til siðanefndar, heldur sé slíkt alfarið á forræði þeirra sem telja á sér brotið.

Þá hefur réttarfarssekt engin áhrif á málflutningsréttindi lögmanna.

Brynjar segir það rétt að það sé afar sjaldgæft að lögmenn séu dæmdir til þess að greiða réttarfarssektir. „Það gerist kannski þegar mönnum hleypur kapp í kinn," segir Brynjar, en það er ljóst að leikrænir tilburðir eru ekki vel séðir í dómssal.


Tengdar fréttir

Lögmaður hermdi á niðurlægjandi hátt eftir fórnarlambi

Hæstaréttarlögmanninum Jóni Egilssyni var í dag gert að greiða 100 þúsund krónur í réttarfarssekt þegar hann flutti mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta er í annað skiptið sem hann er sektaður fyrir slíkt brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×