Innlent

Leggjast gegn breytingum á Fríkirkjuvegi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Húsafriðunarnefnd leggst gegn því að breytingar verði gerðar á innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11.
Húsafriðunarnefnd leggst gegn því að breytingar verði gerðar á innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11.
Húsafriðunarnefnd vill að innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11 verði friðað. Nefndin bókaði þetta í fundargerð á síðasta fundi sínum eftir að Ásgeir Ásgeirsson arkitekt hafði lagt fram beiðni um breytingar og endurbætur á húsinu.

Í bókuninni kemur fram að hið friðaða hús að Fríkirkjuvegi 11 hafi hýst mjög fjölbreytta starfsemi í gegnum árin, án þess að innviðum þess hafi verið breytt, að öðru leyti en því að góðtemplarar dýpkuðu miðhluta kjallara til að gera þar samkomusal á millistríðsárunum. Húsið sé að miklu leyti í upprunalegri mynd, bæði að innra og ytra byrði, frá því að Thor Jensen lét reisa það á árunum 1907-08.

„Í fyrirliggjandi tillögum er gert ráð fyrir miklum breytingum á innra byrði hússins, s.s. færsla á aðalstiga og veggjum, niðurtöku stiga og gerð nýrra, niðurbrot veggja og mikil fjölgun og stækkun hurðaopa. Talið er að með þessum breytingum verði gildi þessa glæsilega húss rýrt meira en ásættanlegt getur talist þegar svo varðveisluvert hús á í hlut," segir í fundargerðinni.

Í fundargerðinni er svo óskað eftir því að forstöðumaður Húsafriðunarnefndar hefji undirbúning að friðun innra byrðis hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×