Innlent

Lítil stemning innan þingflokks VG

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Stemningin var lítil innan þingflokks vinstri grænna sem fundaði í Borgarnesi í dag eftir átök helgarinnar. Steingrímur J. Sigfússon segir það þó hljóta að vega þungt meðal þingmanna flokksins að glutra ekki árangri ríkisstjórnarsamstarfsins niður eftir allar fórnirnar sem hafi verið færðar.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur fundað í allan dag í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þingflokkurinn ræddi jafnframt við flokksfélaga á svæðinu í hádeginu en nokkrir þingmenn munu svo halda áfram til Grundarfjarðar í kvöld og hitta þar fleiri flokksfélaga.

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri Grænna, segir afstöðu þingmanna flokksins í landsdómsmálinu ekki hafa verið til umræðu í dag. Áhersla hafi verið lögð á önnur mál sem bíði afgreiðslu þingsins.

„En því er auðvitað ekki að neita að þetta hefur verið okkur erfitt. Það hefur blasað við öllum. Við munum leysa úr því en það verður ekki í dag," segir Björn Valur.

Spurður hvort það sé hægt svarar Björn Valur: „Já það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Að sjálfsögðu.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra sagði hins vegar landsdómsmálið eflaust eiga eftir að bera á góma eftir átök helgarinnar.

Og það virðist vera lágt risið meðal þingmanna VG. Þannig svarar Ögmundur þegar hann er spurður hvernig stemningin sé innan þingflokksins:

„Hún er engan veginn. Menn hafa verið að gefa sínar yfirlýsingar í fjölmiðlum. Aðrir hafa verið að hlusta. Ég hef aðallega verið í þeim hópi núna yfir helgina," sagði Ögmundur Jónasson sem segist ekki hafa orðið viðskila við stefnu Vinstri Grænna, þrátt fyrir að styðja landsdómstillögu Bjarna Benediktssonar, en sumir þingmenn vinstri grænna telja að Ögmundur eigi að segja af sér sem ráðherra.

„Haldið þið áfram að starfa saman?"

„Það hefur allavega ekki verið tekin ákvörðun um annað," svarar Ögmundur.

Steingrímur J. Sigfússon, segir það ekkert launungarmál að þingflokkurinn hafi klofnað í atkvæðagreiðslunni á föstudag.

„Þetta mál er búið að vera erfitt allan tímann. Þetta er mál þingsins ekki ríkisstjórnar. Það er ekki fjallað um þetta stjórnarsáttmálanum o.s.frv. Þetta er lögbundið og stjórnarskrárbundið hlutverk Alþingis og það er Alþingi sem verður að takast á þetta sem stofnun sem eining. Það er rétt að menn hafi þetta í huga," sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur segir sátt innan þingflokksins vera í sjónmáli. Ríkisstjórnin hafi náð miklum árangri og þingmenn hljóti að hugsa til þess.

„Það hlýtur að vega þungt hjá hverjum og einum að glutra því ekki niður eftir allar fórnirnar sem við höfum fært til þess að komast þó þangað sem við erum komin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×