Enski boltinn

Evra spilar líklega gegn Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Suarez verður vitaskuld í banni um helgina.
Luis Suarez verður vitaskuld í banni um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Patrice Evra mun líklega spila með Manchester United gegn Liverpool um helgina og verður þá væntanlega áfram fyrirliði liðsins í fjarveru Nemanja Vidic.

United mætir í heimsókn á Anfield um helgina en liðin eigast þá við í ensku bikarkeppninni. Verður það í fyrsta sinn sem United spilar þar síðan að mál Evra og Luis Suarez kom upp.

Suarez var dæmdur í átta leikja bann fyrir að vera með kynþáttaníð í garð Patrice Evra. Suarez neitaði sök en Liverpool ákvað á endanum að áfrýja ekki úrskurðinum, þó svo að félagið hafi staðið þétt við bak síns manns.

Alex Ferguson, stjóri United, hefur hvatt stuðningsmenn sína til stillingar og forráðamenn beggja liða vona að leikurinn geti farið fram undir eðlilegum kringumstæðum. Það er þó viðbúið að Evra fái heldur óblíðar viðtökur hjá heimamönnum.

„Ég held að sá leikmaður sem spilar hvað mest eigi að vera með fyrirliðabandið og leiða sitt lið út á völlinn. Patrice hefur verið sá leikmaður," sagði Ferguson. „Hann er afar vinsæll og vel liðinn. Honum fer það vel að vera fyrirliði."

„Rio [Ferdinand] hefði verið fyrirliði ef hann hefði átt í sínum meiðslavandræðum. Patrice býr yfir öðrum eiginleikum. Hann lætur ekki mikið í sér heyra inn á vellinum en hefur víða áhrif og spilar til að mynda mjög vel fyrir liðið allt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×