Enski boltinn

Kemur til greina að færa bikarúrslitaleikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manchester City varð bikarmeistari í fyrra.
Manchester City varð bikarmeistari í fyrra. Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn enska knattspyrnusambandsins eru nú að velta því fyrir sér hvort það eigi að láta úrslitaleik ensku bikarkeppninnar fara fram á öðrum tíma en venja hefur verið.

Sambandið vill að leikurinn fari fram á degi þar sem enska úrvalsdeildin er í fríi en það hefur oft reynst erfitt. Flýta þurfti úrslitaleiknum í fyrra vegna þess að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fór einnig fram á Wembley-leikvanginum.

Úrslitaleikurinn fór fram klukkan 15.00 þann 14. maí en fyrr um daginn fóru fram fjórir leikir í ensku úrvalsdeildinni. Úrslitaleikurinn hefur ávallt verið leikinn klukkan 15.00 á laugardegi en nú gæti það breyst.

„Það sem mestu máli skiptir er að leikurinn standi upp úr, jafnvel þótt að hann fari ekki fram á síðasta degi tímabilsins," sagði Alex Horne, framkvæmdarstjóri enska sambandsins.

„Við erum að ræða við ensku úrvalsdeildina um þann möguleika að taka frá einn laugardag fyrir bikarúrslitaleikinn. Við erum líka að skðoa þann möguleika að láta leikinn fara fram síðar um daginn svo að ekki þurfi að færa leiki [í neðri deildum] sem fara fram klukkan 15.00 á laugardögum. Þannig fengju stuðningsmenn þeirra liða tækifæri til að styðja sitt lið og horfa svo á leikinn í sjónvarpi síðar um daginn."

„Við erum að reyna að skapa leiknum smá sérstöðu og vonandi tekst það sem allra fyrst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×