Innlent

Frost á Langjökli - veðrið hamlar tökum

Frost er vísindatryllir sem gerist uppi á jökli.
Frost er vísindatryllir sem gerist uppi á jökli.
Rúmlega tuttugu manna kvikmyndatökulið er nú að tygja sig niður af Langjökli sökum veðursins sem gengur yfir landið. Verið er að gera hörkuspennandi íslenskan vísindatrylli sem á að heita Frost en myndin er í leikstjórn Reynis Lyngdal.

Ingvar Þórðarson, framleiðandi myndarinnar, segir í samtali við Vísi að ekkert ami að fólkinu á jöklinum þrátt fyrir brjálað veður. Hann segir öryggið þó haft í fyrirrúmi og því hafi verið ákveðið að pakka saman og fara af jöklinum. Tökur hófust í gær og segir Ingvar að allt hafi gengið framar vonum. Í dag tókst einnig að ljúka tveimur þriðju af áætlun dagsins áður en veðrið setti strik í reikninginn.

Ingvar segir þó að frá byrjun hafi verið gert ráð fyrir að veðrið gæti haft áhrif og því komi þetta ekki niður á kostnaðaráætlun.

„Myndin gerist líka að mestu í brjáluðu veðri þannig að þetta hefur bara komið sér vel," segir Ingvar. Hann segir hópinn mjög vel búinn og að björgunarsveitarmenn séu með í för.



Þessi mynd barst Vísi frá tökuliðinu rétt í þessu.
Stefnt er að því að fara aftur upp á jökulinn um leið og færi gefst.

„Við skoðum spána í kvöld og sjáum hvað setur," segir Ingvar að lokum og ítrekar að ekkert ami að fólkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×