Innlent

Íslendingar gerðu tæknibrellur fyrir Contraband

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar

Íslenskt tæknibrellu og eftirvinnslu fyrirtæki hannaði allar brellur í nýjustu mynd Baltasar Kormáks, Contraband. Tuttugu og fimm manns unnu í hátt í fjóra mánuði við að gera myndina eins raunverulega og hægt er.

Myndin Contraband í leikstjórn Baltasar Kormáks er endurgerð á íslensku myndinni Reykjavík Rotterdam sem Baltasar framleiddi og lék í. Myndin er framleidd af Universal Studios í Bandaríkjunum og verður frumsýnd um helgina í mörg þúsund bíósölum um allan heim.

Á Íslandi starfar hins vegar lítið tæknibrellu fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki eins stærsta tæknibrellu risa heims, Framestore. Fyrirtækið hannaði allar tæknibrellur og sjónhverfingar sem sjást í Contraband, svo sem sprengingar, árekstra og stóra gámaskipið sem myndin snýst að stóru leyti um.

„Það er svona okkar takmark að gera það sem er ekki hægt að ná á filmu sem raunverulegast og í stíl við restina af kvikmyndinni," segir Daði Einarsson, stjórnandi hjá Framestore.

Íslenski hluti fyrirtækisins hefur unnið að myndum svo sem Clash of the Titans, Salt, Sherlock Holmes og Harry Potter en þetta er í fyrsta skipti sem þeir fá að vinna mynd frá grunni. Daði segir brellurnar taka mislangan tíma en það tók 25 manns fjóra mánuði að vinna 220 skot fyrir Contraband.

„Auðvelt skot er kannski 3 til 4 dagar en erfitt skot eru 6 til 8 vikur," segir Daði.

Hvað er erfitt skot? „Til dæmis að búa til heilt skip frá grunni í þrívídd, það er tiltölulega erfitt skot myndi ég segja."

Aðalleikarar Contraband eru Hollywood leikararnir Mark Wahlberg og Kate Beckinsale en Mark segir í viðtali að hann hafi ekki talið líklegt að hún myndi taka hlutverkinu.

„Hún brást vel við efninu og átti síðan góðan fund með Baltasar. Hún tók þátt í alls kyns spennuatriðum og fann sig mjög vel í heimi þeirra. Hún vildi því minna fólk á það hversu hæfileikarík hún er," segir Mark Wahlberg.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.