Innlent

Landlæknir vill upplýsingar um brjóstastækkanir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Geir Gunnlaugsson er landlæknir.
Geir Gunnlaugsson er landlæknir.

Landlæknir sendi í dag bréf til allra lýtalækna þar sem óskað er upplýsinga um þær sílíkonaðgerðir sem þeir hafa gert á brjóstum. Þá munu í fyrsta sinn liggja fyrir gögn um aldursdreifngu kvenna með sílíkonbrjóst og þróun á fjölda aðgerða eftir árum.



Heilbrigðisráðherra Breta sagðist í dag hlynntur því að safnað verði gögnum um sílíkonaðgerðir á brjóstum til að geta betur kortlagt hvort púðar frá franska fyrirtækinu PIP rifna oftar en aðrir púðar. Svipuð leið verður farin hér á landi en engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda íslenskra kvenna með sílíkonbrjóst.



„Við höfum heldur engar upplýsingar um það hversu algengt rof er á slíkum púðum og hversu margar aðgerðir konur hafa gengist undir vegna þessa," segir Geir.



Það eitt hefur komið fram að talið er að um fjögur hundruð konur á Íslandi séu með sílíkon frá PIP.



Bretar, sem íslensk yfirvöld líta einna helst til, eru nú að endurmeta þá niðurstöðu sína að púðar frá PIP séu ekki skaðlegri en aðrir púðar eftir að í ljós kom að fleiri púðar höfðu rifnað en vitað var um.



Geir vonast til þess að upplýsingar frá lýtalæknum liggi fyrir innan tíu til fjórtán daga. Þá á eftir að vinna úr þeim.



Mörgum þykja fegrunaraðgerðir vera mikið feimnismál, en Geir segir konum með sílíkonbrjóst að hafa ekki áhyggjur.



„Ég get lofað íslenskum konum að við stöndum vörð um persónuvernd þeirra" segir Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×