Innlent

Segir óánægju ríkja með stefnu forystumanna VG

Megn óánægja ríkir innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vegna þeirrar stefnu sem framlína flokksins hefur tekið, meðal annars í Evrópumálum. Formaður félags VG á Álftanesi útilokar ekki úrsögn sína úr flokknum.

Þeir trúnaðarmenn flokksins sem fréttastofa talaði við sögðu mikinn óróa vera innan hans, órói sem lengi hefur varað en er nú orðinn meiri. Ein helsta ástæða þessa er sú stefna sem framlína flokksins hefur tekið í Evrópumálunum, en meðal kosningaloforða var að flokkurinn myndi berjast gegn ESB aðild. Anna Ólafsdóttir Björnsson, formaður félags VG á Álftanesi og harður andstæðingur ESB aðildar segir þetta þegar hún er aðspurð um hvernig framlínan taki óánægjuröddum innan flokksins: „Hreinlega bara lifa af og hlusta sem minnst."

Anna segir mikla óánægju vera hjá flokksfélögum fyrir norðan í kjölfar þeirrar ákvörðunar að Jón Bjarnason viki sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. „Og ef að það er einhvers staðar sem að ég á von á því að það verði hreinlega fjöldaflótti þá væri það helst á svæðum Jóns Bjarnasonar fyrir norðan, sem eru mikil landbúnaðarhéruð og fólk hefur mikla og að mínu mati raunhæfa ástæðu til þess að hafa áhyggjur af evrópusamrunanum sem við virðumst vera að sogast inn í."

Munt þú sjálf segja þig úr flokknum? „Það er ótímabært í rauninni að sjá það fyrir sér. Ég hef ákveðið að taka þessa baráttu, allavega hingað til, inni í þessum flokki sem mér þykir mjög vænt um. En hins vegar vil ég sjá að það sé eitthvað komið til móts við okkur sem að viljum viðhalda stefnu flokksins, því að þetta er jú stefna flokksins, að vera hörð í andstöðunni gegn ESB."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×