Innlent

Húsleit í Tækniskólanum ólögmæt

Frá húsleit lögreglunnar í Tækniskólanum árið 2010.
Frá húsleit lögreglunnar í Tækniskólanum árið 2010.
Umboðsmaður Alþingis kemst að þeirri niðurstöðu að húsleit í Tækniskólanum í febrúar árið 2010 hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá leitaði lögreglan að fíkniefnum í skólanum og notaðist við fíkniefnahunda. Á sama tíma voru útgönguleiðir lokaðar. Yfir þúsund nemendur voru lokaðir inni á meðan.

Umboðsmaður Alþingis hóf athugun á málinu að eigin frumvæði eftir að fjölmiðlar greindu frá því. Þannig kom fram á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis að Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þætti aðgerðirnar yfirdrifnar.

Smáræði af kannabis fannst í tóbaksdós við leitina en enginn var handtekinn vegna málsins.

Í niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis kemur fram að það sé á engan hátt dregið í efa mikilvægi þess að skólayfirvöld og lögregla reyni eftir fremsta megni að stöðva dreifingu fíkniefna innan veggja skóla.

Svo segir orðrétt:

„Tilgangurinn getur þó ekki helgað meðalið. Aðgerðir lögreglu verða hér sem endranær að samrýmast gildandi lagareglum en þær hafa það einkum að markmiði að ekki sé gengið lengra við meðferð opinbers valds en heimilt er samkvæmt grundvallarreglum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×