Innlent

Hross aflífað - talið að það hafi orðið hrætt vegna flugelda

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint
Umferðaróhapp varð um klukkan sex í morgun á Laugarvatnsvegi við Brúará á móts við bæina Efri-Reyki og Syðri-Reyki er hross varð fyrir pallbifreið sem átti leið um veginn. Hrossið slasaðist það mikið að ekki var hjá því komist að aflífa það, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi.

Hrossastóð var á og við veginn og er talið að það hafi fyrr um nóttina eða kvöldið fælst vegna notkunar skotelda í sumarhúsabyggð við Syðri-Reyki og stóðið ruðst í gegnum girðingu við veginn.

Lögreglan biður þá sem kannast við eða geta veitt upplýsingar um skoteldanotkun á umræddu svæði í gærkvöldi eða í nótt að hafa samband í síma lögreglu 480 1010.

Um leið vill lögreglan koma því á framfæri við almenning að fylgja eftir lögum og reglum um skotelda og taka sérstakt tillit til dýra. Þess skal getið að notkun skotelda er bönnuð við gripahús og meðferð þeirra er alltaf bönnuð frá miðnætti til kl. 09:00 að undanskilinni nýársnótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×