Innlent

Kannabisræktun stöðvuð

JHH skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi í austurborginni í gær. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á 30 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Húsráðandi, karl um þrítugt, var handtekinn á staðnum og viðurkenndi hann aðild sína að málinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var ræktunaraðstaðan í herbergi í íbúð mannsins en í því voru greinileg ummerki um bruna. Hann viðurkenndi að þar hefði kviknað í út frá rafmagni. Myndast hefði mikill reykur og ræktunartjaldið logað en maðurinn náði sjálfur að slökkva eldinn. Mildi þykir að ekki fór verr og í raun mikið happ að maðurinn var heima við þegar eldurinn kviknaði.

Lögreglan segir að eldhætta af þessari starfsemi sé mikil og það sé eitt af áhyggjuefnunum þegar kannabisræktun er annars vegar. Ekki síst sökum þess að kannabisræktun er nú æ oftar að finna í fjölbýlishúsum en sú óheillaþróun hófst fyrir nokkrum misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×