Innlent

Fíkniefnaleitirnar höfðu fælingaráhrif

HJH og JHH skrifar
Stefán Eiríksson er lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán Eiríksson er lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Fíkniefnaleitir líkt og þær sem voru gerðar í framhaldsskólum landsins höfðu fælingarmátt að mati lögreglunnar, segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að slíkum leitum hafi verið hætt eftir að Umboðsmaður Alþingis fór að skoða hvort þær væru ólögmætar.

Eins og greint var frá í fréttum í dag hefur Umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að húsleit sem lögreglan gerði í Tækniskólanum fyrir hartnær tveimur árum hafi verið ólögleg. Þá mætti lögreglan með fíkniefnahunda í skólann og lokaði nemendur inni í skólanum á meðan leit fór fram.

Stefán segir í samtali við fréttastofu að þarna hafi ekki verið um aðgerðir að frumkvæði lögreglu að ræða. „Þarna voru skólayfirvöld að kalla eftir ákveðnum forvarnaraðgerðum af hálfu lögreglu, fíkniefnaleit í opnu rými. Það hafði að okkar mati fælingaráhrif - að menn mátu vita að lögreglan gætu komið inn í skóla með fíkniefnahunda til að fylgjast með hvort það væri ekki allt í lagi," segir Stefán.

Stefán segir að álitinu verði ekki mótmælt á nokkurn hátt. „Við höfum fylgt því hingað til sem Umboðsmaður Alþingis hefur beint til okkar og munum gera það áfram," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×