Innlent

Leggjum pinnið á minnið

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Hundruðir sölustaða um allt land eru nú komnir með örgjörvaposa þar sem viðskiptavinir þurfa að stimpla inn pin númer til að ljúka greiðslu. Verkefnastjórinn segir breytinguna hafa gengið vel en nú eru þrjú af hverjum fjórum kortum hér á landi komin með örgjörva.

Það var í júní í fyrra sem verkefninu pinnið á minnið var hleypt af stokkunum og fyrstu fyrirtækin fóru að nota örgjörvaposa sem gerir fólki kleift að staðfesta viðskipti með pin númeri.

„Það er auðvitað í fyrsta skipti sem að korthafar upplifa það að þurfa að setja kortið sjálfir í posann. Það er ekkert óeðilegt að fólki þyki það pínu óvenjulegt en eftir því sem við sjáum og fylgjumst með að þá eru íslenskir korthafar bara fljótir að venjast þessu og bregðast vel við,"segir Sigurður Hjalti Kristjánsson verkefnastjóri Pinnið á Minnið hjá Capacent. Hann segir til dæmis að Pósturinn sé kominn með svona posa í öll pósthús og um jólin hafi þeir sem greiddu með korti notað þessa nýju aðferð og gengið mjög vel.

„Öll kreditkortin okkar eru með örgjörva. Þetta er lítill silfraður eða gylltur kassi framan á kortinu þannig getur fólk þekkt hvort það sé komið með svona kort. Debetkortunum fjölgar mjög hratt og núna eru 3 af hverjum 4 kortum komin með örgjörva," segir hann.

Enginn tímarammi er fyrir því hvenær svona greiðslumáti verður orðinn útbreiddur á alla sölustaði. Um þúsund posar bjóða upp á þennan möguleika núna og þar af nokkur hundruð sem leggja áherslu á staðfestingu með pinni.

„Við gerum ráð fyrir því að þessi aðferð muni bara færast í aukana jafnt og þétt," segir hann að lokum. Það er því um að gera að fara að leggja pinnið á minnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×