Innlent

Vilja afsökunarbeiðni vegna skaupsins

Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Norræna félagið í Hveragerði mæltist í dag til þess að Páll Magnússon útvarpsstjóri bæðist afsökunar á brandara úr áramótaskaupinu þar sem fjöldamorðin í Noregi voru höfð í flimtingum. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem birtist á vefsíðu Fréttablaðs Suðurlands.

Yfirlýsingin í heild hljóðaði svona: "Norræna félagið í Hveragerði harmar að í áramótaskaupi Ríkisútvarpsins skuli fjöldamorðin í Noregi í sumar sem leið, hafa verið flokkuð sem tilefni spaugsyrða. Mælist félagið til þess að útvarpsstjóri biðjist opinberlega afsökunar á þessu atviki, ekki aðeins Norðmanna vegna, heldur einnig fyrir sakir sjálfsvirðingar Íslendinga. F.h. félagsins, Kristbjörg Erla Hreinsdóttir."

Þar með bætist Norræna félagið í hóp þeirra sem hafa farið fram á afsökunarbeiðni. Páll hefur hins vegar áður gefið út að hann sjái ekki tilefni til afsökunarbeiðna. "Áramótaskaupið var óforskammað, ófyrirleitið, óbilgjarnt, ósanngjarnt, bráðfyndið og skemmtilegt. Ég var ánægður með það," var svar Páls við fyrirspurn DV vegna málsins.

Hann þóttist líka sjá fyrir að það yrði töluvert fyrirtæki ef menn færu á annað borð út í það að biðjast afsökunar á bröndurum úr skaupinu. "Það yrði þá býsna langur nafnalisti, að sjálfum mér meðtöldum, og ég gerði þá ekki mikið annað fram að næsta Áramótaskaupi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×