Innlent

Salurinn á Nasa of illa farinn til að standa

Fremra byrði Nasa sem snýr að Austurvelli er friðað og verður aldrei rifið.
Fremra byrði Nasa sem snýr að Austurvelli er friðað og verður aldrei rifið. Mynd/GVA
Eigandi Nasa segir salinn í húsinu mjög illa farinn. Hann telur nauðsynlegt að rífa hann sem fyrst, hvort sem hann verður þá endurbyggður í sömu mynd eða ekki.

„Það er kannski ekki beinlínis að hruni komið, enda væri þá hætta fólgin í því. En það sér það hver sem gengur Vallarstrætið að þetta er bara hrófatildur," segir Pétur Þór Sigurðsson eigandi Nasa. Þar vísar hann til salarins eða aftari hluta Nasa.

Nasa er í raun tvískipt hús, annars vegar danssalurinn sjálfur sem er mjög illa farinn og hins vegar fremra húsið sem snýr að Austurvelli. „Fremri hlutinn er friðaður, enda alger gullmoli og verður aldrei rifinn," segir Pétur.

Aftari salurinn aftur á móti átti upphaflega að vera bráðabirgðabygging. Það fór hins vegar svo að byggingin varð einn vinsælasti dansstaður landsins. Nú er byggingin komin mjög til ára sinna og nauðsynlegt að rífa hana sem fyrst, hvort sem hún verður svo endurbyggð eða ekki, að sögn Péturs.

Sannleikurinn hvað framtíð skemmtistaðarins varðar er sá að nú er í gangi hugmyndasamkeppni á vegum Arkitektasambands Íslands. Dómnefnd mun velja bestu tillöguna að framtíðarhlutverki Nasa. Niðurstaða úr samkeppninni ætti að liggja fyrir næsta sumar. „Og það ræðst auðvitað bara af hugmyndunum í samkeppninni hvað verður gert þarna í framtíðinni," segir Pétur.

Auk Péturs eiga Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, Hjálmar Sveinsson og Júlíus Vífill borgarfulltrúar sæti í dómnefndinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×