Innlent

Hagstæðast að kaupa páskaeggin í Bónus

Hagstæðast er að gera páskaeggjakaupin í Bónus samkvæmt nýrri könnun Verðlagseftirlits ASÍ. Könnunin var gerð í 7 matvöruverslunum víðsvegar um landið á mánudaginn var. Kannað var verð á 28 algengum páskaeggjum. Kostur og Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.

Bónus var með lægsta verðið á 16 páskaeggjum af 28, næst oftast var Fjarðarkaup með lægsta verðið eða á 9 páskaeggjum og Krónan á þremur. Samkaup-Úrval var með hæsta verðið á 21 páskaeggjum af 28, en Hagkaup var næst oftast með hæsta verðið eða á 7 páskaeggjum. Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Fjarðarkaupum sem hafði á boðstólum öll páskaeggin sem voru skoðuð. Krónan átti til 27 af 28 og Nettó og Hagkaup 26. Fæst eggjanna voru fáanleg í Nóatúni eða 18 talsins og Bónus átti 21.

Mestur verðmunur í könnuninni reyndist vera á páskaeggi frá Freyju númer 9, bæði draumaeggi og ríseggi, sem var dýrast á 2.569 krónur hjá Samkaupum-Úrval en ódýrast á 1.598 krónur í Fjarðarkaupum. Verðmunurinn var 971 krónur, eða 61%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á lakkrís páskaeggi frá Nóa Síríus. Það var dýrast á 1.379 krónur hjá Nettó en ódýrast á 1.259 krónur hjá Bónus. Verðmunurinn var 120 krónur eða 10%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×