Innlent

Reyna að skila af sér á þessu ári

Vinnan við skýrslurnar hefur þegar tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert.Fréttablaðið/gva
Vinnan við skýrslurnar hefur þegar tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert.Fréttablaðið/gva
„Stefnan er að reyna að klára þetta á þessu ári,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari og formaður rannsóknarnefndar sem Alþingi skipaði til að rannsaka fall sparisjóðakerfisins. Sigurður H. Stefánsson, formaður rannsóknarnefndar um starfsemi Íbúðalánasjóðs, gefur sama svar.

Báðar nefndirnar voru skipaðar fyrir ári, sú um sparisjóðina í ágústlok og um Íbúðalánasjóð í septemberbyrjun.

Íbúðalánasjóðsnefndin átti lögum samkvæmt að skila skýrslu sinni til Alþingis sex mánuðum eftir skipun, eða í byrjun mars, og sparisjóðanefndin átti að skila af sér 1. júní síðastliðinn.

Báðar nefndirnar báðu um frest „til haustsins“ eins og það var orðað í fjölmiðlum á þeim tíma, þar sem verkefnið hefði reynst stærra í sniðum en við var búist. Nú er ljóst að skýrslunum verður ólíklega skilað fyrr en í fyrsta lagi undir lok árs.

„Skýrslutökurnar taka mjög langan tíma – við erum svolítið í þeim núna,“ segir Sigríður meðal annars um það hvers vegna vinnan hefur tafist jafnmikið og raun ber vitni.

Sigurður tekur undir það og segir að mikill fjöldi manna hafi komið í skýrslutöku hjá nefndinni. „Það er óhætt að segja að þetta hafi undið upp á sig.“ - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×