Innlent

Styttist í kynningu á stjórnarskrárfrumvarpinu

BBI skrifar
Alþingi sér um kynningu á frumvarpinu.
Alþingi sér um kynningu á frumvarpinu. Mynd/GVA
Alþingi mun fljótlega senda kynningarbækling á hvert einasta heimili landsins til að varpa ljósi á innihald frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Einnig verður opnuð heimasíða í upplýsingarskyni.

Vinna við kynningarefnið er nú á lokastigi, en skrifstofa Alþingis fékk lagadeild Háskóla Íslands til aðstoðar við smíði kynningarefnisins. Lagadeildin vinnur texta í kynninguna og nýtur við það fulltingis ýmissa sérfræðinga.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram 20. október og því styttist óðum í að landsmenn fái að segja sína skoðun á þessu umfangsmikla frumvarpi. Hins vegar hefur enn lítið borið á kynningarefni sem Alþingi ber lögum samkvæmt að gefa út.

Þorsteinn Magnússon, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, segir að stefnt sé að því að vefsvæði opni í síðustu vikunni í september á slóðinni thjodaratkvaedi.is. Þar verður allt efnið sem fram kemur í kynningarbæklingnum sem nú er í smíðum og meira til. Bæklingurinn sjálfur verður svo sendur heim til landsmanna í kjölfarið.

Að sögn Þorsteins hafa ýmsir fjölmiðlar sömuleiðis sýnt áhuga á því að kynna frumvarpið. Landsmenn geta því búist við umfangsmikilli kynningu þegar nær dregur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×