Innlent

Óvíst hvaða lög sprengjumaðurinn braut

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Karlmaður á áttræðisaldri hefur játað að hafa komið sprengjunni fyrir skammt frá Stjórnarráði Íslands. Óvíst er hvaða refsingu hann á yfir höfði sér en svo gæti farið að hann fái einungis sekt. Innanríkisráðherra segir eftirlit hafa verið aukið við ákveðna staði eftir atvikið.

Tæpar tvær vikur eru síðan að lögregla var með mikinn viðbúnað á Hverfisgötunni þegar einhvers konar sprengja fannst skammt frá Stjórnarráði Íslands. Í ljós kom að um restar af sprengju var að ræða.

Lögregla hefur síðan leitað að þeim sem ábyrgð báru á sprengjunni og birti meðal annars myndir úr eftirlitsmyndavél til að reyna að fá upplýsingar. Í gær voru svo þrír handteknir í tengslum við málið. Tveimur var sleppt aftur en sá þriðji, karlmaður á áttræðisaldri, játaði að hafa hafa komið sprengjunni fyrir. Manninum hefur verið sleppt úr haldi lögreglu þar sem að málið telst upplýst en hann var einn að verki.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að tilgangur mannsins hafi ekki verið að valda skaða heldur koma ákveðnum skilaboðum á framfæri við stjórnvöld. Lögregla hefur þó ekkert viljað gefa upp um hver skilaboðin voru. Lögregla hefur heldur ekki viljað upplýsa úr hverju sprengjan var gerð en í tilkynningunni kemur fram að hún hafi ekki verið til þess fallin að valda eyðileggingu eða hættu, enda hafi maðurinn staðið við hlið hennar þegar hún sprakk. Óvíst er hvaða refsingu maðurinn á yfir höfði sér.

„ Sjálfsagt er þetta brot gegn einhverjum ákvæðum lögreglusamþykktar. Það gæti verið einhver sektarrefsing við slíku en ef við göngum út frá því að það sé engin almannahætta, að sprengjan hafi ekki verið hættuleg, þá sé ég enga aðra refsingu í þessu," segir Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands

Um tvær klukkustundir liðu frá því fyrst var tilkynnt um sprengjuna þar til lögregla kom á svæðið. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ætlar að funda með ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í næstu viku og fara yfir málið. Hann segir að eftirlit hafi verið aukið eftir atvikið.

„Það er alltaf gert þegar svona kemur upp þá eru hækkað svona eftirlitsstaðlar, það var gert svona við stjórnarráðsbyggingar og aðra staði. Það er bara rútínuvinnubrögð lögreglunnar," sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×