Innlent

Bylting í merkingu á matvælum

Með tilkomu nýju reglugerðarinnar verður erfiðara að villa um fyrir neytendum.
Með tilkomu nýju reglugerðarinnar verður erfiðara að villa um fyrir neytendum.
Miklar breytingar eru í vændum á reglum um merkingar matvæla. Reglugerð þar að lútandi verður tekin upp hér á landi á næstu misserum og mun þá koma í stað núverandi reglna um merkingu matvæla, merkingu næringargildis og þess háttar, samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar.

Reglugerðin sem um ræðir er til komin í kjölfar margra ára vinnu innan Evrópusambandsins við endurskoðun reglna um merkingar á matvælum. Afrakstur þeirrar vinnu er umrædd reglugerð sem nefnist „Food information to consumers“ eða „Upplýsingar um matvæli til neytenda“. Markmið hennar er að auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun við fæðuval með því að tryggja að mikilvægar upplýsingar sem tengjast heilnæmi, öryggi og innihaldi matvara birtist á viðunandi hátt á umbúðum og víðar.

Í nýju reglunum er lögð áhersla á skýrari upplýsingar fyrir neytendur. Þar má nefna áherslu á áberandi merkingu ofnæmisvalda í innihaldslýsingu. Lögð er áhersla á að neytendur hafi ítarlegri upplýsingar en nú til að velja matvæli sem þeim henta. Til dæmis verður skylt að merkja næringargildi flestra pakkaðra matvæla. Með breytingunum verður erfiðara að villa um fyrir neytendum um innihald og samsetningu matvæla. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×