Innlent

Íbúar á Hofsósi þurfa að sækja þjónustu á Sauðárkrók

Boði Logason skrifar
Íbúar á Hofsósi þurfa að fara á Sauðárkrók til þess að borga reikninga og taka út pening. Þá þurfa þeir einnig að gera sér ferð þangað til þess að versla í matinn því kaupfélagið brann síðastliðið vor.
Íbúar á Hofsósi þurfa að fara á Sauðárkrók til þess að borga reikninga og taka út pening. Þá þurfa þeir einnig að gera sér ferð þangað til þess að versla í matinn því kaupfélagið brann síðastliðið vor. mynd/GVA
„Það er svo erfitt fyrir okkur að fá svör,“ segir Páll Birgir Óskarsson, sauðfjárbóndi á Skuggabjörgum í Skagafirði. Íbúar á Hofsósi eru án banka og þá brann kaupfélagið síðastliðið vor og sækja nú íbúar nauðsynjavörur í bráðabirgðahúsnæði sem björgunarsveitin í bænum á. Til þess að versla almennilega í matinn og borga reikninga þurfa íbúar að keyra á Sauðárkrók, en vegurinn þangað er í kringum 40 kílómetrar.

Í vor kviknaði í kaupfélaginu í bænum út frá fyrstiskáp og þurfti að loka því og hreinsa allt út. Forsvarsmenn kaupfélagsins brugðu því á það ráð að fá lánað húsnæði hjá björgunarsveitinni tímabundið til þess að selja nauðsynjavörur. „Okkur var lofað því að þetta yrði klárt fyrir september/október. Það versta við þetta er að við höfum aldrei heyrt frá þeim síðan í vor, maður hefur heyrt útundan sér að það sé verið að vinna í þessu en ekki meira en það,“ segir Páll Birgir.

Tvær langlokur í kaupfélaginu

Íbúar á svæðinu, sem eru í kringum 300, þurfa því að keyra yfir 40 kílómetra langan spöl á Sauðárkrók til þess að versla í matinn. „Við þurfum að gera það ef við þurfum að kaupa eitthvað meira en mjólk og svoleiðis. Það er lítið vöruúrval á Hofsósi, bara þessar algengu matvörur, en ekki nema brot af því sem var í kaupfélaginu áður en það brann. Það kemur bíll tvisvar í viku með vörur til okkar og í sumar þegar það var mikið af ferðamönnum hérna þá voru sumir hlutir bara ekki til. Þá þurfti oft einhver starfsstúlka í búðinni að fara á Krókinn til þess að ná í það sem vantaði,“ segir Páll Birgir og bendir á að stundum voru bara til tvær langlokur í kaupfélaginu jafnvel þótt að það hafi verið pantaðar tíu. „Það var örugglega ekki meira til eða að við fengum þær gömlu úr búðinni á Króknum.“

En þetta er ekki það eina sem er að plaga íbúa á Hofsósi því þar er heldur enginn banki og á eldra fólkið erfitt með að fara á Sauðárkrók til þess að útrétta. „Útibúinu var lokað í sumar og þar var hraðbanki í forstofunni en þegar það rigndi var hann ónothæfur. Um daginn var hann færður upp í húsnæðið til björgunarsveitarinnar og þar stendur hann út á miðju gólfi ótengdur,“ segir Páll Birgir og bendir á að íbúar séu að taka umfram á kortinu í búðinni til þess að eiga smá pening. „Hraðbankinn átti að bjarga öllu, það er verst að það sé ekki hægt að borga reikningana í honum.“

Skiptu á milli sín Fréttablaðinu

Íbúar þurfa því að fara á Sauðárkrók til að borga reikninga. „Maður myndi sleppa því ef þetta væri eins og þetta var áður fyrr. En það er mikið af eldra fólki hérna sem á erfitt með að sækja þjónustu á Krókinn,“ segir hann en hrósar þó Vegagerðinni sem sér til þess að búið sé að ryðja veginn á milli Hofsósar og Sauðárkrók.

Páll Birgir nefnir líka að ekkert Fréttablaðið berist í bæinn, einungis Mogginn. „Við höfum fengið eitt blað sem sá sem keyrir á milli Siglufjarðar og Sauðárkróks skildi alltaf eftir í Kaupfélaginu áður en það brann. Þar var eitt blað sem menn skiptu á milli sín á meðan þeir drukku kaffið á kaffistofunni í Kaupfélaginu,“ segir hann. „Menn keyptu alltaf Fréttablaðið þegar það var í sölu hérna á Hofsósi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×