Innlent

Guðbjartur: Ríkisstjórnin hefur ekki svikið loforð

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, vísar því bug að ríkisstjórnin hafi svikið loforð um hækkun bóta. Hann segir bætur hafi hækkað umfram meðalhækkun launa- og neysluvísitölu á þessu ári.

Verkalýðsforystan hefur gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að svíkja loforð um hækkun bóta í samræmi við viljayfirlýsingu frá því í vor.

Fram kom í máli Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær að endurskoðun kjarasamninga í janúar á næsta ári sé uppnámi vegna málsins.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, telur þvert á móti að stjórnvöld hafi staðið fyllilega við loforð um hækkun bóta.

„Við völdum að túlka þetta þannig á þessu ári, að hækka um 12 þúsund krónurnar þá, um 8,1 prósent á öllum bótaflokkum og borguðum eingreiðslur og desemberuppbót allt ofan á laun. En þá fylgdi nú í skýringum mínum bæði til ÖBÍ, Þroskahjálpar og raunar til ASÍ líka, að við værum ekki viss um að við gætum gert með hliðstæðum hætti um áramótin. Við töldum mikilvægt að þetta kæmi strax til greiðslu við gerð kjarasamninga. Síðan er farið núna í 3,5 prósent hækkun á öllum bótaflokkum sem er meðalhækkun í launum og þannig erum við að skila hækkun bóta bæði umfram launavísitölu og neysluvísitölu,“ segir hann.

Guðbjartur segist harma þann ágreining sem er uppi í málinu.

„Ef að menn eru með ásakanir um svik þá eru menn að ganga of langt. Ég lít ekki þannig á. Ég held að það sé afar mikilvægt í þessari endurreisn allri að við reynum að sjá þau skref sem stigin eru og reynum að gera það saman. Ég held að við séum öll að reyna að draga vagninn í sömu átt og það eiga stjórnvöld, verkalýðshreyfingin og launþegahreyfingin að reyna að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×