Innlent

Vöktuðu risaolíuskip við Ísland

Dæmi um skipin sem sigla við landið, en Ural Star ber 105 þúsund tonn af olíu. mynd/lhg
Dæmi um skipin sem sigla við landið, en Ural Star ber 105 þúsund tonn af olíu. mynd/lhg
Landhelgisgæslan vaktaði olíuskipið St. Heritage frá fimmtudegi til þriðjudags þar sem það beið af sér veður 40 mílur austur af Stokksnesi. Olíuskipið, sem er 40 þúsund tonna tankskip, var á siglingu með fullfermi frá Múrmansk í Rússlandi til Hjaltlandseyja en vegna veðurs við eyjarnar fékk skipið fyrirmæli frá útgerðarfélagi sínu um að bíða á þessu svæði eftir hagstæðari veðurskilyrðum.

Varðstjórar Landhelgisgæslunnar komu auga á skipið í ferilvöktunarkerfum og óskuðu eftir nánari upplýsingum um siglingu þess en þar sem skipið var á alþjóðlegu hafsvæði var því ekki skylt að senda gögn varðandi siglinguna. Var beiðninni þó vel tekið.

Skipið er nú komið út úr íslensku efnahagslögsögunni en vegna staðsetningar þess þótti full ástæða til að fylgjast grannt með skipinu, enda viðkvæmur farmur um borð sem myndi valda miklum skaða ef eitthvað færi úrskeiðis.

Auknar siglingar flutninga- og farþegaskipa á norðurslóðum eru staðreynd og fer stærð skipanna vaxandi. Sérstakur fengur er talinn að því að varðskipið Þór hefur bæst í flota Gæslunnar, en skipið er búið öflugum björgunarbúnaði, segir í frétt frá Gæslunni.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×