Innlent

Nemar geta lært við fjóra skóla

Skólarnir munu geta hagrætt með því að samnýta námskeið þvert á skólana.
Skólarnir munu geta hagrætt með því að samnýta námskeið þvert á skólana.
Opinberu háskólarnir fjórir hafa gert með sér samning um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum við skólana. Forsvarsmenn Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Hólum skrifuðu undir samninginn ásamt menntamálaráðherra á mánudag.

Samningurinn tekur gildi um áramót og frá þeim tíma munu nemendur í einum háskóla geta skráð sig í námskeið við annan opinberan háskóla án þess að greiða nein viðbótargjöld og án þess að móttökuskólinn setji almenn takmörk á fjölda eininga sem teknar eru með þessum hætti. Nemendurnir munu þó þurfa að leita til síns skóla áður en þeir skrá sig í námskeið hjá öðrum skólum, til að tryggt sé að þau fáist metin.

Þegar fram líður munu skólarnir geta notað þennan samning til þess að hagræða í námsframboði með því að sameina námskeið þvert á skóla. Því er gert ráð fyrir því að samningurinn leiði af sér hagræðingu, bætta nýtingu á mannauði og kennsluaðstöðu, auk þess sem hann auki framboð á námi fyrir nemendur.

Samningur skólanna er ótímabundinn en þeir geta sagt honum upp með átján mánaða fyrirvara.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×