Innlent

Fjórtán ráðherrar frá kosningum

Mynd/GVA
Fyrirhugaðar breytingar á ríkisstjórn hafa verið í umræðunni síðustu daga. Allt bendir til að Jón Bjarnason hverfi af ráðherrastóli á næstunni. Fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á ráðherraliði stjórnarflokkanna frá kosningunum 2009. Stjórnmálafræðingur segir hrókeringar í ráðherraliði merki um veikleika ríkisstjórnar.

Annað ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum 10. maí 2009. Stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð, höfðu myndað minnihlutastjórn í febrúar þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá völdum. Kjósendur veittu stjórnarflokkunum umboð til áframhaldandi stjórnarsetu, nú með meirihluta þingmanna á bak við sig, en fyrsta ráðuneyti Jóhönnu var minnihlutastjórn.

Þrátt fyrir að ekki blési byrlega í efnahagslífi þjóðarinnar í árdaga stjórnarinnar ríkti nokkur bjartsýni hjá stjórnarliðum. Stjórnarflokkarnir bættu báðir við sig fylgi í kosningunum, Samfylkingin 2 þingmönnum og Vinstri græn 5. Minnihlutastjórnin naut nú liðsinnis 34 þingmanna af 63 og stjórnarliðar lögðu bjartsýnir af stað í það sem þeir kölluðu fyrstu hreinu vinstristjórnina á Íslandi.

Blikur á lofti

Snemma varð þó ljóst að ekki sætu allir á sárs höfði innan stjórnarflokkanna. Eitt af umsömdum stefnumálum í stjórnarsáttmálanum var aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Slíkt er þvert gegn stefnu Vinstri grænna og í sáttmálann var sett klausa:

„Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma."

Fljótlega reyndi á þetta ákvæði þegar Alþingi sam þykkti í júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Einn ráðherra í ríkisstjórninni, umræddur Jón Bjarnason, greiddi atkvæði gegn tillögunni, ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna. Það fór illa í margan Samfylkingarþingmanninn.

Kvarnast úr

Fyrsta breytingin í ríkisstjórn varð ekki í góðu; Ögmundur Jónasson sagði af sér sem heilbrigðisráðherra í október 2009. Ástæðuna sagði hann vera efnahagsmál, ekki síst Icesave. Ögmundur sneri síðan aftur í ríkisstjórn tæpu ári síðar, en í annað ráðuneyti. Í stól Ögmundar settist Álfheiður Ingadóttir.

Við endurkomu Ögmundar þurftu utanþingsráðherrarnir að taka pokann sinn og einnig Kristján L. Möller. Guðbjartur Hannesson kom einnig inn í ríkisstjórnina. Frekari hræringar urðu við sameiningar ráðuneyta sem tóku gildi 1. janúar 2010.

Þrír þingmenn hafa yfirgefið Vinstri græn - Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir - og einn gengið til liðs við flokkinn, Þráinn Bertelsson. Stjórnin hefur því eins manns meirihluta og ljóst að ekkert má út af bregða eigi hún að lifa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×