Innlent

Icesave afgreitt í ósætti út úr fjárlaganefnd

Höskuldur Kári Schram skrifar
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar telja að stjórnlagaþingsmálið hafi orðið til þess að Icesave frumvarpið hafi verið afgreitt í ósætti út úr fjárlaganefnd.

Icesave frumvarpið var afgreitt úr fjárlaganefnd í gær. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru ósáttir við þessa afgreiðslu en þeir höfðu óskað eftir meiri tíma til að fjalla um málið.

Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi framsóknarflokks, í fjárlaganefnd, sagði í samtali við fréttastofu í gær að niðurstaða hæstaréttar í stjórnlagaþingsmálinu hafi haft áhrif afstöðu stjórnarliða í málinu. Vísar hann til þeirra ummæla sem féllu á Alþingi eftir ákvörðun hæstaréttar lá fyrir.

„Það var einhver óróleiki kominn í meirihluta fjárlaganefndar ætli það helgast ekki af atburðum gærdagsins, svo ég reyni nú að rýna aðeins í það. En mér fannst það mjög dapurlegt að þeir skyldu ákveða að rífa málið út í ósætti," segir Höskuldur.

Undir þetta tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi sjálfstæðiflokks í nefndinni, sem segir að samstarfið hafi gengið mjög vel þangað til í gær.

„Það er ákveðin tortryggni í gangi. Framkoma forsætisráðherra í gær hjálpaði ekki mikið upp á það að menn leiti samráðs og sátta. Þetta hjálpaði ekki til nei," sagði hún.

Ekki náðist í Oddnýju G Harðardóttur, formann fjárlaganefndar né Björn Val Gíslason, varaformann fjárlganefndar, í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×