Innlent

Hætta inntöku lyfja vegna aukaverkana

Dæmi eru um að konur með brjóstakrabbamein hafi gefist upp á að taka hormónabælandi lyf vegna aukaverkana, að sögn Ásgerðar Sverrisdóttur, krabbameinslæknis á Landspítalanum.

„Við höfum rætt þetta reglulega í okkar hópi. Mörg okkar hafa það á tilfinningunni að konur séu ekki að taka þessi lyf alveg samkvæmt fyrirmælum og gefist stundum upp á að taka þau án þess að láta lækni vita af því. En þær gera það reyndar í sumum tilfellum í samráði við lækninn."

Í Bandaríkjunum hættir um þriðjungur sjúklinga með brjóstakrabbamein að taka hormónabælandi lyf vegna aukaverkana. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Northwestern-háskólann í Chicago. Samkvæmt rannsókninni kváðust 36 prósent hafa hætt að taka lyfin vegna liðverkja, hitakófs, þyngdaraukningar og ógleði.

Ásgerður bendir á að hormónabælandi lyf séu gefin í fyrirbyggjandi skyni í fimm ár.

„Þetta er langur tími og konur sætta sig kannski ekki við mjög miklar aukaverkanir í svona langan tíma."

Um 75 prósent æxla í brjóstum eru hormónanæm, að því er Ásgerður greinir frá. „Meirihluta kvenna með brjóstakrabbamein er ráðlagt að taka þessi lyf en algengustu aukaverkanirnar eru tíðahvarfaeinkenni."

Ásgerður segir að þessari fyrirbyggjandi meðferð hafi verið beitt í um 40 ár. „Árangur meðferðarinnar hefur verið mikið rannsakaður og öflug gögn á bak við þær rannsóknir sýna að meðferðin minnkar hættuna á endurkomu sjúkdómsins um 50 prósent og hættuna á dauða af völdum hans um 30 prósent óháð því hvort konan er komin yfir breytingaskeiðið eða ekki."

Ásgerður segir afar mikilvægt fyrir konur að ræða aukaverkanirnar við lækni.

„Mikilvægt er að leita allra leiða áður en gefist er upp á inntöku svona mikilvægs lyfs."- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×