Innlent

Fá skerðingu á launum til baka

Páll Magnússon tilkynnti á fundi með starfsmönnum að launaskerðing yrði dregin til baka.
Páll Magnússon tilkynnti á fundi með starfsmönnum að launaskerðing yrði dregin til baka.
Draga á til baka launaskerðingu sem starfsmenn Ríkisútvarpsins tóku á sig í ársbyrjun 2009 í kjölfar bankahrunsins. Þetta tilkynnti Páll Magnússon útvarpsstjóri á fundi sem hann boðaði til með starfsmönnunum í síðustu viku.

„Auðvitað erum við ánægð með að fá þessa launaskerðingu til baka,“ segir Ægir Þór Eysteinsson, formaður Félags fréttamanna hjá RÚV. „Okkur hefur fundist við sitja eftir miðað við launaleiðréttingar hjá öðrum ríkisstofnunum þar sem starfsmenn tóku á sig kjaraskerðingu eftir hrunið, þannig að við fögnum þessu eins og gefur að skilja.“

Ekki náðist tal af Páli Magnússyni í gær né öðrum æðstu yfirmönnum RÚV. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gengur skerðingin til baka í tveimur jöfnum áföngum. Fyrst hækka launin um komandi áramót og síðan að nýju í síðasta lagi 1. september á næsta ári.

Ekki tóku allir starfsmenn RÚV á sig launaskerðingu á sínum tíma því hún gilti ekki um þá sem voru með minna en þrjú hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun. Skerðingin var stigvaxandi hlutfallslega eftir því sem launin voru hærri.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×