Innlent

Ræktandi afhendi fimm hunda

Þannig líta þeir út, hundarnir sem tekist var á um fyrir héraðsdómi.
Þannig líta þeir út, hundarnir sem tekist var á um fyrir héraðsdómi.
Kona sem ræktar hunda á Kjalarnesi hefur verið dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að afhenda fimm Papillon-hunda, einn rakka og fjórar tíkur, sem hún hafði látið fjarlægja af heimili konu í Grindavík fyrir tæpu ári.

Mikill ágreiningur var milli kvennanna tveggja um hvernig málum hefði verið háttað.

Konan í Grindavík hafði keypt fjóra smáhunda af ræktandanum og þegið þann fimmta að gjöf. Hver hundur kostaði 180 þúsund krónur. Hún var ekki búin að greiða þá að fullu og taldi seljandi sig því geta sótt hundana og hafði ítrekað neitað að afhenda þá.

Ágreiningurinn snerist meðal annars um það hversu mikið kaupandinn skuldaði ræktandanum. Þá hefði kaupandinn vanefnt það skilyrði fyrir kaupunum að hundarnir yrðu ekki skráðir í hundaræktarfélagið Rex, mættu ekki æxlast með hundum úr því félagi og yrðu ekki sýndir á vegum þess. Loks lagði ræktandinn fram kaupsamninga sem kaupandinn sagði falsaða.

Samkvæmt dómnum skal ræktandinn afhenda kaupandanum hundana innan fimmtán daga eða greiða tíu þúsund krónur á dag í dagsektir þann tíma sem afhendingin dregst.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×