Lífið

Billy Crystal tekur við Óskarnum

Crystal verður kynnir á Óskarnum í níunda sinn. Hann segist feginn því nú geti stúlkurnar í apótekinu hætt að spyrja hann um aldurinn.
NordicPhotos/Getty
Crystal verður kynnir á Óskarnum í níunda sinn. Hann segist feginn því nú geti stúlkurnar í apótekinu hætt að spyrja hann um aldurinn. NordicPhotos/Getty
Hinn 63 ára gamanleikari Billy Crystal hefur tekið að sér að vera kynnir við afhendingu Óskarsverðlaunanna. Crystal hleypur í skarðið fyrir Eddie Murphy en hann gaf frá sér verkefnið þegar leikstjórinn Brett Ratner neyddist til að hætta sem stjóri hátíðarinnar eftir að hafa látið niðrandi orð um samkynhneigða falla á blaðamannafundi og síðar í útvarpsþætti Howard Stern.

Crystal þekkir þetta hlutverk sennilega manna best því þetta verður í níunda sinn sem hann gegnir því, síðast var það 2004. Athygli vekur að Óskarsakademían leitar alltaf til Crystal þegar eitthvað bjátar á eða þegar hátíðin hefur gengið illa en kynnarnir í ár, þau James Franco og Anne Hathaway, þóttu engan veginn standa undir nafni. „Ég er mjög ánægður því þá geta stelpurnar í apótekinu hætt að spyrja mig hversu gamall ég sé þegar ég sæki lyfin mín,“ skrifaði Crystal á twitter-síðu sína.

Brian Grazer, sem framleiddi meðal annars Óskarsverðlaunamyndina A Beautiful Mind eftir Ron Howard, hefur tekið við af Ratner sem svokallaður „framleiðandi“ en það þýðir að hann mun hanna opnunaratriðið og hafa yfirumsjón með útlitinu. Óskarinn er næstvinsælasta sjónvarpsefni Bandaríkjanna ár hvert en aðeins Superbowl, úrslitaleikurinn í bandarískum ruðningi, dregur að fleiri áhorfendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.