Lífið

Fær annað tækifæri í dansþætti

Karl Emil Karlsson er óvænt meðal keppenda í raunveruleikaþættinum Dans, dans, dans eftir að danspar forfallaðist vegna persónulegra ástæðna. Fréttablaðið/Valli
Karl Emil Karlsson er óvænt meðal keppenda í raunveruleikaþættinum Dans, dans, dans eftir að danspar forfallaðist vegna persónulegra ástæðna. Fréttablaðið/Valli
„Ég ætla mér að vinna þessa keppni og nota þessa milljón til að borga fyrir dansnám. Ég hef aldrei átt peninga fyrir dansnámi,“ segir Karl Emil Karlsson. Hann hefur fengið annað tækifæri í sjónvarpsþættinum Dans, dans, dans eftir að eitt dansparið forfallaðist. Hann verður því í sviðsljósinu í kvöld þegar þjóðin fær tækifæri til að láta í ljós sitt álit á því hvaða dansari sé bestur. Gestadómari kvöldsins verður Magnús Scheving, sem fetar þar með í fótspor Baltasars Kormáks, en leikstjórinn þótti fara á kostum í fyrsta þættinum.

Karl Emil hefur haft mun skemmri tíma til að æfa sig fyrir þáttinn í kvöld en hann er hvergi banginn, hann tók sér frí frá náminu í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og vinnunni í Krónunni og hefur æft eins og vitleysingur síðustu daga. Það hefur hins vegar ekki gengið áfallalaust. „Ég lenti í árekstri fyrir þremur vikum, tognaði á ökkla fyrir hálfum mánuði og núna, viku fyrir þáttinn, teygði ég of mikið á lærinu þannig að ég tognaði. En ég ætla bara að bíta á jaxlinn og verð klár í slaginn. Ég ætla bara að hugsa um hversu frábært atriðið mitt verður.“

Karl Emil viðurkennir að hann hafi fagnað eins og óður maður þegar hringt var í hann frá þættinum og honum tilkynnt að hann gæti dansað í úrslitaþættinum. „Ég ætlaði að hlaupa um húsið og öskra en mamma var sofandi inni í rúmi þannig að ég gerði það bara í hljóði.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.