Lífið

Clooney horfir til Óskarsins

Kvikmyndin The Ides of March verður frumsýnd um helgina. Þetta er fjórða myndin sem George Clooney leikstýrir og það dylst engum að stórstjarnan rennir hýrum augum til Óskarsverðlaunanna. Clooney er einnig einn af handritshöfundum myndarinnar, sem er skrifuð upp úr leikverkinu Farragut North eftir Beau Willimon.

Clooney leikur auk þess eitt aðalhlutverkanna í myndinni, sem fjallar um stjórnmálaumhverfið í Bandaríkjunum. Hún segir frá hinum unga og metnaðarfulla Stephen Meyers sem starfar að forsetaframboði ríkisstjóra Pennsylvaníu og sér fram á bjarta framtíð. Hann er hins vegar óvænt dreginn inn í myrkustu skúmaskot bandarískrar pólitíkur þar sem menn svífast einskis og svipta andstæðinga sína mannorðinu án þess að hika. Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hversu magnþrungin myndin á að vera er rétt að geta þess að heiti hennar vísar til dagsins þegar Júlíus Sesar var drepinn árið 44 fyrir Krist.

Myndin er kynnt sem pólitískur tryllir og hefur fengið afbragðs góða dóma; hún fær 7,5 á imdb.com og 85 prósent gagnrýnenda eru sátt samkvæmt samantekt rottentomatoes.com. Meðal annarra leikara í myndinni eru Ryan Gosling, Philip Seymour Hoffman, Evan Rachel Wood og Marisa Tomei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.