Lífið

Stefnir í magurt kvikmyndaár

Svartur á leik verður frumsýnd á næsta ári.
Svartur á leik verður frumsýnd á næsta ári.
Næsta ár verður dapurt, þetta verða kannski tvær til þrjár frumsýningar," segir Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Eftir næstum ótrúlega fjörug ár að undanförnu þar sem þrjátíu íslenskar kvikmyndir hafa verið frumsýndar stefnir í ansi mögur ár á næstunni í íslenskri kvikmyndagerð.

Kvikmyndirnar Djúpið, Svartur á leik og Þetta reddast verða einu íslensku kvikmyndirnar sem frumsýndar verða árið 2012 ef að líkum lætur.

Á þessu ári hafa átta íslenskar kvikmyndir verið frumsýndar en 2010 var algjört metár; níu íslenskar kvikmyndir í fullri lengd litu þá dagsins ljós. 2009 voru þær sex og árið þar áður voru myndirnar sjö.

Til samanburðar má nefna að tímabilið 2004-2007 voru íslenskar frumsýningar „aðeins" sextán, eða næstum helmingi færri.

Það hefur legið lengi í loftinu að það myndi harðna á dalnum hjá íslensku kvikmyndagerðarfólki en Laufey segir að það sé fyrst núna sem niðurskurðarhnífurinn bitni á íslenskri kvikmyndagerð; kvikmyndir séu einfaldlega svona lengi í vinnslu.

Laufey óttast jafnframt að fagfólk hugsi sér til hreyfings enda sé ekki mikið fram undan; aðeins fjórar myndir hafa fengið svokallað vilyrði fyrir styrk frá Kvikmyndasjóði sem er veittur með þeim fyrirvara að það takist að fjármagna myndina eftir öðrum leiðum, það séu ansi mörg „ef" á þeim vegi.

Myndirnar fjórar eru Grafarþögn eftir Baltasar Kormák, Málmhaus eftir Ragnar Bragason, Ófeigur gengur aftur eftir Ágúst Guðmundsson og Hross um oss eftir Benedikt Erlingsson. -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.