Lífið

Unglist fagnar tuttugu ára afmæli

 Ása Hauksdóttir segir dagskrána í ár glæsilega.
Ása Hauksdóttir segir dagskrána í ár glæsilega. Fréttablaðið/GVA
Listahátíð ungs fólks, Unglist, hefst á morgun og fagnar tuttugu ára afmæli sínu í ár. Ása Hauksdóttir, deildarstjóri menningarmála hjá Hinu húsinu, hefur fylgt hátíðinni frá upphafi og segir sérlega ánægjulegt hversu vel hafi tekist til með verkefnið, sem hófst fyrir tveimur áratugum.

„Upphafið var þegar Hitt húsið tók til starfa 1992. Þá sýndi sig strax að ungt fólk hafði margt til málanna að leggja. Svo hefur þetta náttúrulega þróast gífurlega í áranna rás en í rauninni er alltaf sami þráðurinn, að þetta er ungt fólk og það er ungt fólk sem heldur utan um hvern dagskrárlið."

Ása segir að eftirspurnin eftir þátttöku sé jafn mikil á hverju ári. „Unga fólkið er byrjað að hringja á vorin til að spyrja hvenær Unglist fari fram. Ég hugsa að þetta hafi lifað svona lengi vegna þess að þennan vettvang hefur vantað, ungt fólk hefur svo fá tækifæri til að sýna hvað það getur og kann og hefur fram að færa."

Á hátíðinni í ár verður litið yfir farinn veg og nokkrir af eftirminnilegustu atburðum hátíðarinnar endurteknir. Því verður nokkuð um þekkt andlit úr listaheiminum sem tóku sín fyrstu skref á Unglist. „Á þessum tuttugu árum hafa í raun og veru listamenn þjóðarinnar fæðst. Til dæmis mætti nefna Curver Thoroddsen, sem byrjar á Unglist með Sveim í svart/hvítu árið 1995 sem varð síðan fastur atburður á hátíðinni til 2000 og verður endurfluttur núna."

Hátíðin í ár stendur í tvær vikur og má finna allar upplýsingar á Unglist.is. Ása hvetur fólk til að kynna sér dagskrá hátíðarinnar. „Það sem mér finnst frábært er að allt frá upphafi hefur verið frítt inn á alla viðburði, það er náttúrulega alveg einstakt. Og hátíðin er ekki bara fyrir þennan aldurshóp heldur fyrir alla í samfélaginu sem vilja sjá af hve miklum metnaði og elju ungt fólk vinnur og hvað það hefur margt fram að færa."- bb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.