Innlent

Segir Samkeppniseftirlitið leggja Forlagið í einelti

Jóhann Páll Valdimarsson
Jóhann Páll Valdimarsson
Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi hjá Forlaginu, segir Samkeppniseftirlitið hafa lagt fyrirtækið í einelti síðustu ár. Þrátt fyrir blómlega samkeppni í útgáfu láti eftirlitið fyrirtækið ekki í friði.

„Það er einfaldlega þannig að íslensk bókaútgáfa rís ekki undir þeim kostnaði sem það hefur óhjákvæmilega í för með sér að þurfa að fá lögfræðinga til að svara endalausum erindum frá Samkeppniseftirlitinu. Kostnaður okkar vegna þeirrar sáttar sem við þurftum að gangast undir árið 2008 er farinn að nema tugum milljóna utan sektarinnar,“ segir Jóhann Páll.

Bókaútgáfan Forlagið varð til við samruna Eddu-útgáfu og JPV árið 2007. Samkeppniseftirlitið neitaði hins vegar að samþykkja hann nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Forlagið féllst að lokum á skilyrðin sem það hefur þurft að starfa eftir síðan.

Fyrr á þessu ári sektaði Samkeppniseftirlitið Forlagið um 25 milljónir vegna brota á skilyrðunum. Taldi það Forlagið hafa sent seljendum leiðbeinandi smásöluverð sem brjóti í bága við skilyrðin. Forlagið hefur mótmælt sektinni harðlega og vísað henni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér segir að það telji það óþekkt að fyrirtæki með jafnlitla hlutdeild af heildarmarkaði sé beitt svo harkalegum viðurlögum.

Jóhann Páll segir einkennilegt að Samkeppniseftirlitið hafi lagst gegn samrunanum á sínum tíma. „Ef við hefðum gert þetta hálfu ári síðar hefði þessi samruni ekki einu sinni verið tilkynningaskyldur þar sem lögum var breytt og veltumörk hækkuð. Við höfum því margoft farið fram á endurskoðun á sáttinni en án árangurs. Okkur er einfaldlega ókleift að starfa eftir þessari sátt, hún stenst ekki veruleikann,“ segir Jóhann Páll. - mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×