Lífið

Reyna við Íslandsmet í planki

Hér planka þau saman, eins og glaðlegir kópar á steini, þau Daði Þór Einarsson, skipuleggjandi hátíðarinnar Í túninu heima, Sigríður Dögg Auðunsdóttir kynningarstjóri og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. fréttablaðið/gva
Hér planka þau saman, eins og glaðlegir kópar á steini, þau Daði Þór Einarsson, skipuleggjandi hátíðarinnar Í túninu heima, Sigríður Dögg Auðunsdóttir kynningarstjóri og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. fréttablaðið/gva
„Maður er allur endurnærður eftir gott plank, og tilfinningin eftir að hafa sett fjöldamet í planki verður örugglega sæt því samstaðan sem skapast þegar margir gera sama hlutinn er svo skemmtileg," segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, forstöðumaður kynningarmála hjá Mosfellsbæ, þar sem reynt verður að setja Íslandsmet í planki við setningu bæjarhátíðarinnar Í túninu heima á Miðbæjartorginu í kvöld klukkan 20.

Plank varð áberandi í byrjun árs, en í plankastellingu er lagst á magann og teygt úr sér svo maður verði eins og þráðbein spýta, andlitið snýr niður og handleggir liggja með síðum.

„Á Miðbæjartorginu er fínasti plankveggur þar sem hægt verður að raða niður plankandi fólki. Plank hentar öllum og er alls ekki erfitt á veggnum góða. Því verður spennandi að sjá hvort nokkur hundruð mæta til að planka saman, eða jafnvel þúsundir, en þá flokkast það eflaust undir óstaðfest heimsmet," segir Sigríður Dögg og hvetur landsmenn alla til að eyða fögru ágústkvöldi með Mosfellingum í einstakri og skemmtilegri afrekstilraun.

„Bæjarstjórinn plankar vitaskuld fremstur í flokki enda í fanta plankaformi eftir að vera búinn að hita vel upp með magaæfingum í hádegispásunum undanfarið," segir Sigríður Dögg galvösk.

Eftir Íslandsmet í fjöldaplanki verður gengið fylktu liði í Ullarnesbrekkur þar sem kveiktur verður varðeldur og sunginn brekkusöngur. Sjá nánar um dagskrá bæjarhátíðarinnar á mosfellsbaer.is- þlg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.