Lífið

Elsa María gerist vínframleiðandi

Elsa María ásamt föður sínum, Jakobi, og Ólafi Erni, veitingamanni af Dill, með líkjörin Björk og snafsinn Birki. Drykkirnir verða formlega kynntir til leiks á morgun. Fréttablaðið/valli
Elsa María ásamt föður sínum, Jakobi, og Ólafi Erni, veitingamanni af Dill, með líkjörin Björk og snafsinn Birki. Drykkirnir verða formlega kynntir til leiks á morgun. Fréttablaðið/valli
„Nei, ég átti nú ekki von á því að enda sem vínframleiðandi,“ segir fyrrverandi Kastljósstjarnan Elsa María Jakobsdóttir.

Hún og pabbi hennar, mjólkurfræðingurinn Jakob Svanur Bjarnason, hafa ásamt Ólafi Erni Ólafssyni og Gunnari Karli Gíslasyni af veitingastaðnum Dill þróað líkjör og snafs sem unnir eru upp úr íslensku birki. Líkjörinn nefnist Björk en snafsinn Birkir og verða drykkirnir formlega kynntir til leiks á morgun.

Elsa segir þetta eiga sér sinn aðdraganda. Pabbi hennar hafi verið að gera tilraunir með birki og svo hafi hún heyrt af því að Ólafur og Gunnar væru í svipuðum pælingum í eldhúsinu hjá sér. „Það voru einhvern veginn allir að hugsa það sama og það var bara ákveðið að sameina þessi verkefni undir einn hatt.“

Fjórmenningarnir leituðu til Catco vína í Borgarnesi sem framleiðir meðal annars Reyka vodka og segir Elsa að þar hafi þau mætt miklum skilningi. „Við fengum að gera alls konar tilraunir inni á gólfi hjá þeim.“ Elsa segir norræna birkið vera einstakt að því leyti að það sé sætt á bragðið. Því hafi legið í augum uppi að nota birkið, það sé enda líka frumbyggi Íslands. Þetta verður eitt af síðustu verkefnum Elsu hér á landi því hún heldur brátt utan til Kaupmannahafnar, þar sem hún hyggst setjast á skólabekk en hún kláraði nýverið BA-verkefni sitt í félagsfræði við Háskóla Íslands. „En ég verð eitthvað með puttana í þessu frá Danmörku.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.