Lífið

Ungur hugsjónamaður á BMX-hjóli

"Fyrst var gert svolítið grín að mér og sagt að ég væri alltaf á þessu hjóli en nú eru allir hættir því. Þegar maður er líka farinn að gera flott myndbönd þá öðlast maður smá virðingu," segir Magnús Þórlindsson, ungur BMX-hjólreiðamaður á Selfossi. Hann hefur sýnt áhugamálinu sínu mikla ástríðu þrátt fyrir að vera nánast sá eini í bæjarfélaginu sem hjólar á slíku hjóli. Hann tekur til að mynda strætó með hjólið sitt yfir Hellisheiðina allar helgar til að æfa sig í Reykjavík því aðstaðan, að hans sögn, er ekki uppá marga fiska í heimabænum.

Magnús segist snemma hafa fengið áhuga á hjólum, hann byrjaði á fjallahjóli en færði sig síðan yfir í BMX-flokkinn fyrir þremur árum. "Þá voru nokkrir strákar hérna á BMX en þeir eru eiginlega allir hættir núna, ég er því eiginlega eini BMX-strákurinn í bænum." Hjólreiðakappinn nýtti sumarið vel því hann fór ásamt nokkrum öðrum BMX-köppum hringinn í kringum landið á BMX-hjólunum, hjólin voru reyndar keyrð á milli í sendiferðarbíl en þeir sjálfir voru í Volkswagen. "Þetta var ótrúlega skemmtilegt og við lentum aldrei í neinum stælum. Við stukkum meðal annars ofanaf þaki á Húsavík og fengum mat fyrir hjá fólkinu." Og Magnús gætir fyllsta öryggis á hjólinu og er alltaf með hjálm. "Ég hef skallað jörðina það oft að ég nota alltaf hjálm." -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.